Færsluflokkur: Bloggar

Innovit stofnað í sinni endanlegu mynd

Ég var rétt í þessu að senda frá mér eftirfarandi fréttatilkynningu eins og sjá má á heimasíðu innovit (www.innovit.is)

Fréttatilkynning: Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, stofnað á 10 ára afmæli Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Hópur ungs fólks hefur undanfarið ár unnið að undirbúningi að stofnun Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, sem leggur sérstaka áherslu á stuðning við frumkvöðla úr íslensku háskólaumhverfi. Á undirbúningstímabilinu var hluti af endanlegri starfsemi Innovit hafin og stofnun félagins í sinni endanlegu mynd undirbúin.

Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hefur nú verið formlega stofnað sem einkahlutafélag í almannaþágu og eru stofnendur og eigendur Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og hugmyndasmiðir Innovit: Andri Heiðar Kristinsson, Magnús Már Einarsson og Stefanía Sigurðardóttir. Í dag eru liðin 10 ár frá stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og er það því táknrænt að á þessum tímamótum hafi Innovit verið stofnað og Nýsköpunarsjóðurinn ákveðið að styðja við unga háskólamenntaða frumkvöðla og taka þátt í stofnun Innovit.

Auk Samtaka iðnaðarins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins munu Landsbanki Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og viðskiptadeild Háskólans á Bifröst styðja við bakið á Innovit næstu þrjú árin og þannig taka þátt í að byggja upp fyrsta flokks stuðningsumhverfi fyrir íslenska frumkvöðla.

“Ég bind miklar vonir við starf Innovit á næstu árum og þess vegna fannst okkur vel við hæfi að taka þátt í stofnun félagsins á þessum tímamótum sem 10 ára afmæli Nýsköpunarsjóðs er. Á Íslandi í dag eru stofnuð allt of fá sprotafyrirtæki sem eiga uppruna sinn í því rannsóknarstarfi sem á sér stað innan háskólanna. Víða erlendis sprettur stór hluti nýrra þekkingar- og hátæknifyrirtækja upp úr starfi háskólanna og er að mínu mati mikilvægt að líta til reynslu annarra landa í þessum efnum. Innovit hefur undanfarið átt í góðu samstarfi við frumkvöðlasetur Massachussetts Institute of Technology, en sá skóli er einn sá fremsti í heiminum þegar kemur að stofnun vel heppnaðra fyrirtækja út frá rannsóknarstarfi nemenda.” segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

“Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Innovit, sem og íslenska frumkvöðla, að fá í lið með okkur reynslumikla aðila úr atvinnulífinu eins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Landsbankann. Þessir aðilar gera okkur kleyft að einbeita okkur að því að styðja við frumkvöðla og byggja upp öflugt stuðningsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki. Innovit er ætlað að vera vettvangur frumkvæðis, hugvits og þekkingar og verður lögð höfuðáhersla á að skapa opinn og hvetjandi vettvang fyrir unga, hugmyndaríka og vel menntaða frumkvöðla” segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Innovit.

“Tilkoma þessa félags er mjög í þeim anda sem við hjá Samtökum iðnaðarins viljum styðja við, þ.e. efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Þetta á ekki hvað síst við um frumkvöðla sem koma úr háskólum landsins.” segir Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

 


Kynningar- og fræðsluherferð Innovit

"Innovit hefur nú hafið kynningar- og fræðsluátak og mun félagið nota næstu vikur til að kynna starfsemi sína og fræða ungt fólk um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Í dag kemur út tímarit Innovit í 15 þúsund eintökum sem meðal annars verður dreift í öllum háskólum landsins. Einnig munu starfsmenn Innovit heimsækja samstarfsskóla Innovit og kynna starfsemina fyrir nemendum. Heimasíða Innovit hefur einnig verið betrumbætt og er nú að finna mun betri og aðgengilegri upplýsingar á síðunni."

Sjá einnig nýja og flottari vefsíðu: www.innovit.is

 


Uppboð - Icelandic Carbon Credit Exchange

Það er alveg klárt mál í mínum huga að það verður að selja losunarheimildir, bæði núna og í framtíðinni. Það eru margir helstu fjármálaspekúlantar í heimi sem telja að markaður með kolefniskvóta, og þá sérstaklega framvirkur afleiðumarkaður muni verða stærsti "hrávöru" markaður í heiminum innan skamms (sbr. t.d. grein í London Financial Times) - þá er vissara að við Íslendingar missum ekki af lestinni, því vegna smæðar okkar og hraðrar aðlögunarhæfni höfum við skýr tækifæri um að taka forystu í heiminum í þessum málum - en erum talsvert á eftir öðrum þjóðum í dag. Lang besta leiðin að mínu mati er að fara að fordæmi Ungverjalands, og selja kolefniskvóta á frjálsum markaði með uppboði. Ungverjar hafa tekið forystu í þessum málum í heiminum og við ættum að nýta okkur reynslu þeirra.

Af hverju hef ég svo sterkar skoðanir á þessum málum, jú eitt af sumarstörfum Innovit (www.innovit.is) við nýsköpun fjallaði einmitt um möguleika þess að stofna íslenska viðskiptastofu með kolefniskvóta - Icelandic Carbon Credit Exchange. Verkefnið var unnið af Bergþóru Arnarsdóttur, meistaranema í hagfræði og var samstarfsverkefni Innovit, Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Þorsteins Inga Sigfússsonar, prófessors.


mbl.is Losunarheimildir verða ókeypis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum einkaframtakið stjórna fjárfestingum ríkisins

Í gær birtist pistill eftir mig á vefritinu Deiglunni (www.deiglan.com) sem einnig fer hér að neðan:

Látum einkaframtakið stjórna fjárfestingum ríkisins

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga heyrðust innan allra flokka frasar eins og “stórefla þarf opinber framlög” og “gera þarf stórátak” þegar rætt var um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífinu. Illa ígrundaðar upphrópanir sem þessar hafa lítinn tilgang annan en að vekja falsvonir, eyða skattpeningum og í besta falli enda sem fyrirsagnir í fjölmiðlum. Það má alls ekki misskilja það sem svo að undirritaður vilji ekki styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki heldur þvert á móti. Slíkt þarf hinsvegar að gera á réttum forsendum til að hámarka ágóða sprotafyrirtækjanna, arðsemi ríkispeninganna og ávinning þjóðfélagsins.

Fyrir nokkrum áratugum átti ríkið flest stærstu fyrirtæki landsins, bankana, fjarskiptafyrirtækin, orkufyrirtækin og svo mætti áfram telja. Flest þessara fyrirtækja eru nú komin í einkaeigu og hefur það ótvírætt sýnt sig að einkaaðilum er mun betur treystandi til að stýra fyrirtækjunum. Ekki nóg með það, heldur hefur ríkið mokað inn tekjum í staðinn vegna aukinna skatttekna. Allir græða.

Nú er komið að því að við förum að stíga næstu skref, og látum ekki aðeins einkaaðilana stýra gömlu ríkisfyrirtækjunum, heldur líka hluta af fjárfestingum og styrkveitingum ríkisins! Það er einfaldlega staðreynd að einkaaðilum, sem sjálfir bera fjárhagslega ábyrgð, er betur treystandi til að stýra þessum fjármunum heldur en launþegum ríkisins - að þeim öllum ólöstuðum. Fyrsta skrefið í þessa átt, ætti að taka í auknum stuðningi ríkissins við sprotafyrirtæki.

Nú spyrja menn eflaust, hvernig í ósköpunum á að fara að þessu. Lausnin er mjög einföld og hefur sú leið verið farin í mörgum löndum í kringum okkur og reynst afar vel.

Sú leið kallast “króna á móti krónu”, þ.e. ríkið fjárfestir í sprotafyrirtækjum á móti einkaaðilum. Slíkt hefur til dæmis reynst mjög vel í Skotlandi, en þar eru aðstæður um margt svipaðar og á Íslandi. Fyrirkomulagið er þá þannig að fjárfestar þurfa að sækja um að verða “vottaðir fjárfestar”, en til að fá slíka vottun þarf m.a. að sýna fram á nokkrar áræðanlegar eldri fjárfestingar og menn þurfa að ráða yfir ákveðnum fjármunum í hreinni eign til fjárfestinga. Þegar fjárfestir hefur fengið slíka vottun getur hann fjárfest í sprotafyrirtækjum og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leggur ríkið jafn mikið hlutafé í fyrirtækið og fjárfestirinn gerir. Það er síðan fjárfestirinn sem fer með eignarhlut ríkisins og skipar í stjórn fyrir hönd ríkisins ef svo ber undir. Ríkið er því svokallaður hlutlaus fjárfestir í fyrirtækinu og “hermir eftir” fjárfestinum sjálfum að öllu leyti. Ef fjárfestirinn ákveður t.d. að selja sinn hlut í fyrirtækinu, verður hann einnig að sjá um að selja hlut ríkisins á nákvæmlega sömu kjörum.

Með þessu fyrirkomulagi myndi ríkið í raun slá þrjár flugur í einu höggi: Styðja við sprotafyrirtæki, spara sér launakostnað og annan yfirbyggðan kostnað við úthlutun peninganna (þar sem fjárfestirinn sér um alla þá vinnu), og í þriðja lagi ávaxta fjármuni sína á sambærilegan hátt og einkaaðilar á markaðnum.

 


Innovit á ferð um landið

Við hjá Innovit erum að leggja land undir fót í dag en við munum á næstu dögum heimsækja háskólana á landsbyggðinni og kynna fyrir þeim starfsemi og þjónustu Innovit. Þessi frétt var að birtast á www.innovit.is :

Innovit á ferð um landið

Í vikunni verða starfsmenn Innovit á ferð um landið í þeim tilgangi að ræða við forsvarsmenn allra íslensku háskólanna og kynna fyrir þeim starfsemi og þjónustu Innovit. Í ferðinni verða heimsóttir Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Akureyri auk þess sem Kennaraháskóli Íslands verður einnig heimsóttur í vikunni. Nú þegar hefur starsemi Innovit verðið kynnt fyrir Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavik, Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands og hafa allir skólarnir tekið mjög vel í hugmyndir Innovit um samstarf á komandi árum. Það er von Innovit að samstarf við háskólana muni ganga vel og muni verða til þess að efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á meðal nemenda í skólunum.


Stækkum nýsköpunar-kökuna

Það er virkilega gaman að fylgjast með því hversu mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Það er ljóst að það eru miklar hreyfingar á "markaðnum" og verður mjög gaman að taka þátt í, og hafa áhrif á það hvernig stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja mun breytast á næstu árum.

Eftir að ég stofnaði Innovit (www.innovit.is), sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, ásamt góðum hópi fólks í janúar síðastliðnum hefur margt vatn runnið til sjávar og umhverfið tekið jákvæðum breytingum, t.d. með Nýsköpunarmiðstöð íslands og nýjum forstjóra, Þorsteini Inga Sigfússyni.

Frá því að Innovit var stofnað, og í raun alveg frá því að undirbúningurinn hófst vorið 2006, höfum við rætt við tugi einstaklinga frá öllum sviðum þjóðfélagsins og kynnt Innovit fyrir þeim; nemendur, prófessora, forstjóra, rektora, ráðherra, frumkvöðla og nánast allan þjóðfélagsskalann. Sumir, þó ekki margir, hafa spurt hvort virkileg þörf væri fyrir Innovit í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. "Eru ekki einhverjir sem aðstoða sprotafyrirtæki nú þegar?".

Svarið er einfalt: Það er mikil þörf til staðar, og ætti það að vera sameiginlegt markmið allra sem vinna á þessu sviði að "stækka nýsköpunar-kökuna" . Þetta höfum við hjá Innovit gert, og höfum einsett okkur að vinna áfram í náinni samvinnu við önnur frumkvöðlasetur, stjórnvöld, háskólana og sérstaklega íslenskt atvinnulíf að þessu sameiginlega markmiði.

Eitt af því sem allir aðilar þurfa þó að átta sig á, er að nauðsynlegt er að fókusa vel. Við íslendingar eigum það stundum til (og er ég sjálfur langt frá því að vera undantekning sem sannar þá reglu) að hlaupa út um víðan völl og ætla okkur að gera allt of mikið. Við hjá Innovit höfum því tekið þann pólinn í hæðina, að fókusa á íslenska háskólanemendur og háskólamenntað ungt fólk því í þeim hópi eru mikil tækifæri. Enda hefur verið sýnt með alþjóðlegum samanburðarrannsóknum (Global Entrepreneurship Monitor) að einungis um þriðjungur íslenskra frumkvöðla er með háskólamenntun og eru við þar langt á eftir okkar samkeppnisþjóðum.

Í ljósi þessara miklu hræringa á "Nýsköpunar- og frumkvöðlamarkaðnum" ætla ég, með tilliti til þess hvað ég veit um núverandi stöðu og fyrirætlanir, að varpa fram minni spá um hverjir verða fjórir stærstu (að öllum öðrum ólöstuðum) aðilar nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfisins á Íslandi eftir fimm ár. Þess má geta, að eftir fimm ár verða allir þessir aðilar með sínar höfuðstöðvar í Vatnsmýrinni, sem verður Mekka nýsköpunar á Íslandi:

Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur: Innovit leggur fyrst og fremst áherslu á þekkingarfyrirtæki sem stofnuð eru af nemendum eða nýútskrifuðu fólki úr öllum íslenskum háskólunum. Styður fyrirtæki á fyrstu stigunum og tryggir þannig að fleiri sprotum sé sáð. Spilar einnig lykilhlutverk í því að tengja saman unga frumkvöðla landsins í ólíkum háskólum, deildum og sviðum. Eitt af meginverkefnum Innovit verður fræðsla og hvatning ungra háskólamenntaðra frumkvöðla. Aðstaða sprotafyrirtækja hjá Innovit verður veitt ókeypis en í stuttan tíma.

Háskólarnir tveir: Vísindgarðar Háskóla Íslands & Þekkingarþorp Háskólans í Reykjavík: Þeir verða báðir með aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki og raunar einnig fyrir einhver stærri fyrirtæki sem komin verða lengra á veg. Aðstaðan verður að mörgu leiti svipuð, en háskólarnir munu sérhæfa sig og hvor um sig mun skara fram úr á ákveðnum atvinnu- , fræða- og tæknisviðum. Háskóli Íslands mun t.d. skara fram úr í líftækninni, læknavísindunum, fjarskiptageiranum, félagsvísindunum o.fl. en Háskólinn í Reykjavík mun skara fram úr í hugbúnaðarþróun, upplýsingatækni, fjármálageiranum, viðskiptafræði o.fl.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands (sem inniheldur Impru): Leggur áherslu á að styðja við frumkvöðla um allt land, óháð menntun eða atvinnugeira. Styður að mestu lengra komin sprotafyrirtæki (á þó líklega ekki við um landsbyggðina) en Innovit. Stundar einnig sjálfstæðar rannsóknir og nýsköpun. Mun spila lykilhlutverk í að samhæfa aðgerðir og samvinnu annarra aðila í nýsköpunarumhverfinu í samstarfi við stjórnvöld. Aðstaða sprotafyrirtækja er veitt í lengri tíma en hjá Innovit en gegn gjaldi.

Verður gaman að lesa þessa færslu eftir fimm ár.....

 


mbl.is Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekin til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófsteinn hugbúnaðarþróun gerir samning við CCP

Sprotafyrirtæki Innovit hafa haft í mörgu að snúast í sumar og hefur það hvatt okkur hjá Innovit til dáða að sjá fyrirtækin stækka og blómstra, en takast þó jafnan á við krefjandi verkefni. Þessi frétt birti ég á heimasíðu Innovit í gær:

Prófsteinn hugbúnaðarþróun gerir samning við CCP

Prófsteinn hugbúnaðarþróun er eitt þeirra sprotafyrirtækja sem hafa hlotið aðstöðu og ráðgjöf hjá Innovit. Eins og hjá öðrum sprotafyrirtækjum Innovit hefur mikið verið að gerast í sumar, en nýverið gerði Prófsteinn samning við hubúnaðarfyrirtækið CCP. Þann 5. júlí síðastliðinn tók Prófsteinn að sér umsjá með sjálfvirkum prófunum á opinberum vef EVE Online. Eftir farsæla samvinnu við CCP eru áætluð verklok á fjórða og síðasta áfanga verkefnisins á næsta leiti. Prófsteinn stendur nú í viðræðum um frekari verkefni fyrir CCP.


Innovit í útrás til Danmerkur og Króatíu?

Íslensk fyrirtæki í útrás er eiginlega að verða gömul og þreytt lumma, því ekkert fyrirtæki er lengur "maður með mönnum" ef svo má að orði komast um fyrirtæki, nema það hafi "meikað það" í útrásinni.

Þó að markmið Innovit (www.innovit.is) sé fyrst og fremst að auka nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi meðal ungra menntaðra íslendinga er gaman að því að undanfarið hafa menn komið að máli við mig, og velt upp hugmyndum um mögulega útrás Innovit!

Í fyrsta lagi er um að ræða ráðgjafarfyrirtæki á sviði byggingarverkfræði sem nokkrir íslendingar og danir hafa í hyggju að stofna í Danmörku. Þessir aðilar hafa áhuga á því að fá aðstoð hjá Innovit við uppbyggingu síns fyrirtækis.

Einnig hafði í dag samband við mig króatískur verkfræðingur, sem hefur í hyggju að stofna nýsköpunar- og frumkvöðlasetur þar í landi - sambærilegt við Innovit. Hans fólk hefur áhuga á því að fá Innovit í samstarf um uppbyggingu setursins og miðla af reynslu okkar íslendinga, þar sem ekkert sambærilegt frumkvöðlasetur er til í Króatíu.

Virkilega gaman að þessu og yrði mjög spennandi fyrir okkur hjá Innovit að taka að einhverju leiti þátt í þessum verkefnum. Þau eru þó bæði á byrjunarstigum og ómögulegt að segja til um hvernig þetta mun þróast.

Lexía dagsins er að í þessu alþjóðlega umhverfi sem við búum í er sífellt mikilvægara að búa yfir öflugu tengslaneti. Verkfræðingnum frá Króatíu, Slaven Zilic, kynntist ég á evrópskri verkfræði-hönnunarkeppni á vegum BEST (www.BEST.eu.org) í Barcelona á síðasta ári og íslenski verkfræðingurinn sem býr í Danmörku er Einar Þór Ingólfsson, doktorsnemi í DTU og æskuvinur minn!


Innovit í Blaðinu í dag

Í Blaðinu í dag var góð umfjöllun um starfsemi Innovit og þau sprotafyrirtæki sem Innovit hýsir.

Skoða má greinina í heild sinni HÉR og á heimasíðu Innovit (www.innovit.is)

 


Bongóblíða í Freiburg

Þá er maður mættur til Freiburg í Suðvestur Þýskalandi. Elfa systir er búin að búa hérna síðustu ár, en er núna búin að kaupa sér íbúð í Berlín. Ég er semsagt mættur til að hjálpa henni að flytja þangað á morgun. Þetta eru litlir 800 kílómetrar sem við þurfum að keyra á morgun með búslóðina á þýsku autobönunum. Það verður því vafalaust mikið stuð á okkur systkinunum á morgun en við getum síðan hlakkað til kvöldsins því í lok dags verður slegið á létta strengi í fyrirhuguðu Íslendingapartýi í Berlín.

Annars vorum við líka dugleg í dag, ég mætti beint í að klára að mála íbúðina sem hún er að skila (það tíðkast víst hér í Þýskalandi), síðan bárum við mestallt dótið niður (af 6. hæð og engin lyfta) og að lokum áttum við svo sannarlega skilið að kíkja niður í bongóblíðuna niður í bæ, setjast út á veitingastað og svolgra í okkur ískaldan öl Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Andri Heiðar Kristinsson

Andri bloggar....

Andri Heiðar Kristinsson
Andri Heiðar Kristinsson

Ég, hugsjónir mínar og pælingar um allt og ekkert...

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband