Nýsköpun – Er Ísland best í heimi?

Í morgunblaðinu í gær birtist grein eftir mig og læt ég hana einnig flakka hér.... 

Nýsköpun – Er Ísland best í heimi?

Við Íslendingar höfum lengi talið okkur vera best í heimi þegar kemur að flestu sem við tökum okkur fyrir hendur – ef ekki best, þá best miðað við höfðatölu. Nú er það óumdeilt að nýsköpun, í öllum sínum birtingarformum, er einn af lykilþáttum framþróunar og aukins hagvaxtar. Þá er vert að spyrja: Erum við íslendingar best í heimi þegar kemur að nýsköpun, frumkvöðlastarfssemi og stofnun nýrra sprotafyrirtækja? Svarið er einfalt: Í okkur býr frumkvöðlakrafturinn, framtakssemin og hugvitið sem til þarf, en við erum hins vegar langt frá því að leysa þessa krafta úr læðingi svo vel sé. Ef við íslendingar ætlum okkur að viðhalda samkeppnishæfni okkar, byggja upp útrásarfyrirtæki næstu kynslóðar og gera Ísland að þekkingarþjóðfélagi í fremstu röð, þurfum við svo sannarlega að bretta upp ermarnar áður en aðrar þjóðir sigla hraðbyri fram úr okkur.

Samanburður við aðrar þjóðir

Árlega er framkvæmd alþjóðleg rannsókn á umfangi frumkvöðlastarfsemi í yfir 40 löndum í heiminum. Rannsóknin ber heitið Global Entrepreneurship Monitor (GEM) og hefur Rögnvaldur J. Sæmundsson, dósent við Háskólann í Reykjavík, haft umsjón með framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi. Í skýrslunni kemur fram að það helsta sem styður við frumkvöðlastarfsemi á Íslandi, séu menningarlegar og samfélagslegar venjur – með öðrum orðum, frumkvöðullinn blundar í okkur. Athyglisverðasta staðreyndin er hins vegar sú að einungis tæplega þriðjungur íslenskra frumkvöðla eru með háskólamenntun. Þetta hlutfall er um tvöfalt hærra í öðrum hátekjuþjóðum s.s. Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndunum. Þetta hlutfall er sláandi lágt og ég spyr: Hvar er frumkvöðlakrafturinn og framtakssemin í háskólamenntuðum íslendingum? Af hverju erum við eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að menntunarstigi frumkvöðla? Svarið liggur í því að hvatann, fræðsluna og stuðningsumhverfið þarf að bæta verulega. Ef við ætlum okkur að ná í skottið á okkar samkeppnisþjóðum gengur ekki lengur að tala bara fallega um nýsköpun, krossa fingurnar, bíða og vona.

Fá sprotafyrirtæki

Þessar niðurstöður GEM endurspeglast í því að hlutfallslega mjög fá fyrirtæki sem stofnuð eru á íslandi starfa í þekkingariðnaði og eru skilgreind sem sprotafyrirtæki. Samkvæmd skilgreiningu Samtaka Iðnaðarins og Samtaka Sprotafyrirtækja er það fyrirtæki sem hefur undir milljarð í árlegri veltu og eyðir amk. 10% veltunnar í rannsóknir og þróun kallað sprotafyrirtæki. Á Íslandi hafa einungis örfá fyrirtæki bæst í þennan hóp fyrirtækja á hverju ári, nánar tiltekið innan við 5 að meðaltali á hverju ári síðustu 10 árin. Í þessum tölum eru undanskilin þau fyrirtæki sem nú þegar hafa farið á hausinn. Ef fleiri fræjum verður ekki sáð á þessum vettvangi, hvar munu þá útrásartækifæri næstu kynslóðar og fjárfestingatækifæri landsmanna liggja á næstu áratugum?

Þríhyrningur nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi

Háskólar, atvinnulíf og nemendur mynda þríhyrning nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi. Í mjög svo einfölduðu máli má segja að háskólarnir búi yfir fræðilegri þekkingu og stundi grunnrannsóknir, atvinnulífið búi yfir hagnýtri þekkingu, reynslu og fjármagni og nemendurnir búi yfir frumkvöðlakrafti, framtakssemi og ferskum hugmyndum. Þessar þrjár meginstoðir þríhyrnings nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi eru hver um sig traustar í íslensku samfélagi, en ljóst er að treysta þarf verulega tengslin á milli þeirra. Í Bandaríkjunum hafa menn fyrir löngu áttað sig á mikilvægi þessa þríhyrnings-samspils, enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Stór hluti hátækni- og þekkingarfyrirtækja vestan hafs er einmitt sprottinn upp úr viðjum þessa þríhyrnings.

Innovit eflir þríhyrninginn

Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur sem stofnað var í janúar 2007 af sjö núverandi og fyrrverandi nemendum við Háskóla Íslands. Meginmarkmið Innovit er að styrkja tengsl nýsköpunarþríhyrningsins og styðja þannig við bakið á hugmyndaríkum nemendum, auka þátt háskólamenntaðra einstaklinga í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi og stuðla að fjölgun sprotafyrirtækja í þekkingariðnaði. Þessum markmiðum verður náð með fjölbreyttri þjónustu við unga frumkvöðla ásamt vitundarvakningu í þjóðfélaginu. Þjónusta Innovit er öllum opin en lögð er sérstök áhersla á ungt háskólamenntað fólk úr öllum háskólum landsins ásamt því að efla samstarf á milli nemenda í ólíkum háskólum. Starfsemi Innovit má skipta niður í fjórar meginstoðir; 1) Ókeypis aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki. 2) Fræðslu, fyrirlestra, námskeið og ráðstefnuhald. 3) Sumarvinnu við nýsköpun. 4) Keppni í gerð viðskiptaáætlana, að fyrirmynd MIT $100K Entrepreneurship Competition.

Ávinningur þjóðarinnar

Uppbygging skapandi atvinnulífs er forsenda þess að byggja upp þjóðfélag í fremstu röð, sem skapar þegnum sínum farsæl skilyrði til búsetu og starfa. Til þess að tryggja að svo megi verða í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi framtíðarinnar þarf að tryggja samspil þríhyrningsins: atvinnulífsins við alla háskóla landsins og nemendur þeirra, á hlutlausum og miðlægum vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Andri Heiðar Kristinsson

Andri bloggar....

Andri Heiðar Kristinsson
Andri Heiðar Kristinsson

Ég, hugsjónir mínar og pælingar um allt og ekkert...

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 20084

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband