Færsluflokkur: Bloggar
27.5.2008 | 23:47
Allt að gerast....
Það er búið að vera hörkufjör síðustu vikuna - Innovit var að flytja í nýja skrifstofuaðstöðu :) Við fluttum nú reyndar ekki langt, bara niður á fyrstu hæðina í Tæknigarði. En þar fengum við mun betra rými og höfum nú rúmlega tvöfaldað þá aðstöðu sem við höfðum áður sem þýðir að við gátum líka tekið við nýjum sprotum.
Þetta er svona ekta frumkvöðlaaðstaða eins og ég hef séð hana fyrir mér! Opið skrifstofurými þar sem markmiðið er að byggja upp hvetjandi umhverfi, þar sem margir frumkvöðlar eru að störfum - hver að vinna að sínu markmiði.
Svo er gaman að segja frá því að ég var í Kaupmannahöfn um daginn og hitti þar kollega mína sem stýra Venture Cup Denmark, frumkvöðlakeppni þeirra Dana. Við getum lært töluvert af þeim þar, sú keppni var stofnuð fyrir 6 árum síðan svo þeir eru komnir aðeins lengra en við. Síðan í næstu viku verður sameiginlegur fundur allra frumkvöðlakeppna á norðurlöndunum og er stefnan sett á að koma jafnvel á fót samnorrænum úrslitum undir Venture Cup hattinum. Ef af verður mun það verða stærsta viðskiptaáætlanakeppni í heiminum! Verður mjög gaman fyrir okkur hjá Innovit að taka þátt í því verkefni ef vel gengur.
Í sömu ferð fór ég í heimsókn og kynnti mér McKinsey & Company, sem er stærsta ráðgjafafyrirtæki í heimi. Það var virkilega áhugavert að sjá hvernig þeir vinna og ef ég mun einhverntímann hætta að vinna fyrir sjálfan mig (sem er by the way ekki á dagskrá) og fara aftur í corporate vinnu í einhvern tíma - þá held ég að McKinsey yrði líklega efst á óskalistanum.
Hvað hafa þeir upp á að bjóða? ...jú, mjög krefjandi alþjóðleg verkefni sem yfirleitt tengjast stjórnun fyrirtækja, vinnu í litlum teymum en mismunandi á milli verkefna, stutt og intensív verkefni (kannski að meðaltali 6-15 vikur), mikil ferðalög, mikla skorpuvinnu og gott frí þess á milli, leggja mikið upp úr því að þjálfa starfsfólkið sitt og efla það með framtíðina í huga - og að lokum þá er meðalstarfsævi McKinsey ráðgjafa ekki nema 2-3 ár sem ég tel vera kost. Allt þetta á ótrúlega vel við mig - eini gallinn er að þeir eru ekkert í sprotafyrirtækjum, nánast allir þeirra kúnnar eru fyrirtæki af stærðargráðunni 5000+ starfsmenn!
En að venju, líf og fjör hjá Innovit og allt að gerast.... :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2008 | 16:32
Nýlegir Deiglupistlar
Það verður víst að skrifast á mann að hafa verið arfaslakur í því að halda upp þessu bloggi síðasta mánuðinn :)
Hef hinsvegar verið aðeins duglegri að skrifa á vefritið Deigluna, hef nýlega skrifað þessa pistla:
"Einkarekstur á víða við", "Vatnsmýrarslagurinn um nemendur" og "Olíu helt á eld atvinnuleysis"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2008 | 10:39
Gullegginu verpt
Í dag pirtist pistill á Deiglunni sem ég skrifaði um nýafstaðna Frumkvöðlakeppni Innovit. Læt pistilinn einnig flakka hér.....
Gullegginu verpt
Fyrir um viku síðan lauk í fyrsta sinn keppninni um Gulleggið Frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanema og nýútskrifaðra. Gulleggið er samkeppni um gerð viðskiptaáætlana sem haldin er af Innovit að fyrirmynd MIT háskólans í Bandaríkjunum. Fyrir tæpum þremur mánuðum voru sendar inn yfir 100 viðskiptahugmyndir. Þar af komust átta þeirra í úrslit og í fyrstu þremur sætunum urðu Eff2 technologies úr HR, CLARA frá HÍ og Bjarmalundur frá Bifröst.
Gulleggið er að okkar mati tákn um nýtt líf, nýjar og ferskar hugmyndir sem enn eru óskrifað blað en eru við það að brjótast út úr skurninni og líta dagsins ljós, vaxa og dafna. Það verður því mjög spennandi að fylgjast áfram með þeim viðskiptatækifærum sem sáu ljósið í keppninni og sjá hvort einhverjum þeirra takist að klekjast út, vaxa og dafna á næstu árum.
Það er nefnilega staðreynd að einungis lítið brot þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru lifir af fyrstu árin. Því munu væntanlega fá þeirra fyrirtækja sem verða stofnuð í kjölfar keppninnar nokkurn tíman ná flugi, það er óumflýjanleg staðreynd viðskiptaheimsins. Munu einhverjar þessara viðskiptahugmynda leiða af sér rísandi stjörnur eða verða þær allar gleymdar eftir nokkur ár. Það eitt mun tíminn leiða í ljós, en með raunverulega virku stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja, marktækri þjálfun frumkvöðla og keppni sem þessari verður vonandi hægt að bæta árangur íslenskra sprotafyrirtækja. Hann hefur því miður ekki verið upp á marga fiska undanfarna áratugi, með örfáum undantekningum.
Þrátt fyrir að vera skemmtileg og hvetjandi keppni er meginmarkmiðið með slíkri keppni ofureinfalt: Að þjálfa upp frumkvöðla og framtíðarstjórnendur íslenskra fyrirtækja úr röðum háskólamenntaðs fólks. Því var þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og leiðsögn samhliða keppninni. Mælingar á sambærilegum keppnum erlendis s.s. í MIT hafa sýnt að ekki er marktækur munur á milli árangurs stjórnenda þeirra fyrirtækja sem komast í úrslit, þ.e. sætið sem keppendur enda í skiptir ekki höfuðmáli. Hins vegar er vel marktækur munur á milli fyrirtækja sem fara í gegnum slíka keppni samanborið við önnur fyrirtæki.
Keppnin sameinar því í raun tvo mikilvæga þætti til að efla nýsköpun. Í fyrsta lagi er frumkvöðlum veitt þjálfun, aðhald og stuðningur en auk þess er með keppninni búin til ákveðin umgjörð sem með árunum mun vonandi verða gæðastimpill á viðskiptahugmyndir og þannig vettvangur fyrir viðskiptaengla og fjárfesta til þess að meta hugmyndir og sía þær vænlegustu út snemma í vaxtarferli fyrirtækjanna. Á Íslandi er til nægt fjármagn en hins vegar hefur verið mikill skortur á þolinmóðu áhættufjármagni til sprotafyrirtækja. Það má telja líklegt að hluti af ástæðunni sé að hér hafi annars vegar skort nægjanlega þekkingu og þjálfun frumkvöðla til að standast kröfur fjárfesta um hraðan vöxt en hins vegar hefur vantað skilvirkan vettvang til að tengja saman fjárfesta og sprotafyrirtæki á byrjunarstigum.
Innovit var stofnað árið 2007 af nokkrum núverandi og fyrrverandi nemendum við HÍ og er einkarekið frumkvöðlasetur sem er rekið í almannaþágu. Það er trú okkar sem stofnuðum Innovit að einkaframtakinu og atvinnulífinu sjálfu sé best treystandi til að byggja upp stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja. Því er Frumkvöðlakeppnin framlag okkar og þeirra öflugu bakhjarla úr íslensku atvinnulífi sem hafa lagt okkur lið. Það er von okkar að keppnin muni með tímanum marka sér sess í íslensku viðskiptalífi og sá fræjum nýrra vaxtarsprota í jarðveg atvinnulífsins.
Lesa nánar um verðlaunahugmyndirnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 23:04
Fyrstu Frumkvöðlakeppni Innovit lokið
Jæja, þá er maður loksins farinn að geta andað aftur. Ótrúlegt en satt þá er fyrst Frumkvöðlakeppni Innovit fyrir íslenska háskólanemendur og nýútskrifaða lokið. Það er alveg mögnuð tilfinning þegar eitthvað sem maður hefur verið að undirbúa og vinna að í næstum því ár klárast. ....Að ég tali nú ekki um þegar það heppnast svona líka gríðarlega vel!!
Við í verkefnastjórninni sem skipulögðum keppnina vorum alveg í skýjunum eftir helgina. Það gekk allt eins og í sögu og keppnin hefur fengið töluverða fjölmiðlaumfjöllun. Það sem mér fannst samt lang besti mælikvarðinn á árangurinn var að heyra frá þátttakendum hvað margir voru ánægðir og innilega þakklátir fyrir keppnina. Það verður virkilega skemmtilegt að halda áfram að vinna með þessum frumkvöðlum og hjálpa þeim að koma fyrirtækjum sínum áfram enda líka klárleg win-win staða fyrir Innovit. Því að ef keppnin mun skapa af sér raunverulega árangursrík fyrirtæki þá er hún klárlega komin til að vera.
Í fyrst sæti varð fyrirtækið Eff2 (sem var í Kastljósi í kvöld), í öðru sæti lenti CLARA og Bjarmalundur í því þriðja.
Það er hægt að lesa meira um úrslitin á http://www.innovit.is/?id=1&sida=26&frettId=46
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2008 | 19:42
Viðskiptahugmyndir sem keppa til úrslita
Hérna að neðan set ég stutta lýsingu á öllum átta viðskiptahugmyndunum sem eru komnar í úrslit á laugardaginn. Þetta eru mjög fjölbreyttar og skemmtilegar hugmyndir sem allar eiga það sameiginlegt að ég tel raunhæfar líkur á að frumkvöðlarnir að baki þeim láti slag standa og komi þeim í framkvæmd. Miðað við venjulegt "hit" hlutfall sprotafyrirtækja væri raunhæft að ætla að kannski eitt þeirra nái takmarki sínu og verði orðið vel stöndugt fyrirtæki eftir 5-10 ár, eða hafi verið selt fyrir þann tíma.
Ef að eitt eða fleiri þessara fyrirtækja "meika" það á næstu árum tel ég að við getum verið mjög sátt við árangurinn!
Heilsufæði ehf
Hugmyndin byggir á þróun og markaðssetningu markfæðis úr fiskiprótínum, sjávarþangi og mjólkurpróteinum (íslensku hráefni) sem hefur víðfeðm jákvæð heilsufarsleg áhrif, þ.m.t. blóðþrýstingslækkandi áhrif. Framleiðslufyrirtækið mun heita Heilsufæði ehf. Hráefnið hefur þá sérstöðu á markaði í dag hafa ekki verið nýtt á þennan hátt innan núverandi framleiðslueininga þeirra birgja sem áætlað er að verslað verði við. Þetta yrði mikil verðmætaaukning á hráefni. Það er því ódýrt miðað við að vera í hæsta gæðaflokki.
Bjarmalundur ehf
Bjarmalundi er ætlað það hlutverk að veita samfelldan stuðning við sjúklinga með heilabilun og fjölskyldur þeirra, allt frá því að grunur vaknar um sjúklegt ástand og þar til viðkomandi vistast á sólarhringsstofnun. Með því að létta álaginu af fjölskyldunum geta sjúklingar dvalið lengur heima, sem er fjárhagslega hagkvæmt fyrir samfélagið. Einnig verður hlutverk Bjarmalundar að vera leiðandi í rannsóknum, stefnumótun og nýjum úrræðum varðandi þennan viðkvæma skjólstæðingahóp, sem á sér fáa málsvara sökum eðlis sjúkdómsins.
CLARA
Mikið af upplýsingunum sem fyrirtæki sækjast eftir með skoðanakönnunum eru núorðið til staðar á veraldarvefnum. Við getum tekið þessar upplýsingar saman á sjálfvirkan hátt og unnið úr gögnunum með háþróaðri gervigreind sem greinir samhengi og tilfinningar í texta. Þannig viljum við lækka kostnað sem fyrirtæki leggja almennt í markaðsrannsóknir og gjörbreyta þekktum aðferðum.
Tunerific - Gagnvirkt gítarstillikerfi fyrir farsíma
Hönnun og útfærsla á hugbúnaðarlausn sem keyrir óháð öðrum kerfum á síma notandans og krefst ekki auka vélbúnaðartækja. Lausnin gerir notendum kleift að stilla gítar með hjálp farsímans. Forritið ber tóna frá gítarnum saman við staðlaða tóna og nýtir til þess Fourier greiningu. Frávikið frá réttum tón er því næst sýnt á myndrænan hátt í skjá símans. Í stað hinna hefðbundnu tóngjafa er hér komin handhæg aðferð til að stilla gítar. Með tilkomu þessarar lausnar ættu hefðbundin gítarstillitæki sem þjóna þeim eina tilgangi að stilla gítar að heyra sögunni til. Lausnin á því vandamáli að stilla gítar er komin í farsíma sem eru fjölnota tæki og sjaldnast langt frá eigendum sínum.
Smart Iron Systems
Undanfarin ár hefur byggingariðnaðurinn farið sívaxandi, bæði í fjölda og umfangi verka. Enn eru mörg erfiðisverkin unnin í höndunum því skortur er á sjálfvirkum lausnum. Það er því töluverður markaður fyrir tæki sem geta leyst mannshöndina af hólmi. Verkefnið gengur út á að þróa vélar sem hægt er að nota á verkstað til að vinna ýmis verkefni á sjálfvirkan hátt. Einhæf vinna hentar vel fyrir tölvustýrða vél þar sem hægt er að sækja verkbeiðni í gagnagrunn sem vélin síðan vinnur eftir. Fyrst um sinn verða vélarnar seldar á íslenskan markað en áætlanir eru um að hefja sölu erlendis þegar reynsla er komin á þær.
Eff2 Technologies / Videntifier
Videntifier kerfið getur sjálfvirkt greint vídeóefni á netinu til varnar höfundarrétti. Það þekkir aftur þúsundir klukkustunda af efni sem það hefur áður séð, og getur farið yfir mikið magn efnis á hverjum degi. Kerfið fer yfir vídeó á netinu og ber kennsl á það. Því næst er hægt að semja um greiðslu fyrir birtingu efnisins eða það tekið niður, í samræmi við óskir höfundarréttarhafa.
BROW liner
Viðskiptahugmyndin gengur út á að umbylta ákveðnum hluta snyrtivöruiðnaðarins með þróun og hönnun á áhaldi sem er einfalt og notendavænt, sér í lagi fyrir eldri konur og sjónskerta. Áhaldið er nýjung og mun það vera framleitt í Kína. Markhópurinn eru konur 18 ára og eldri.
Náttúrulaugar við Jökul
Náttúrufegurð Íslands er okkar aðal aðdráttarafl og vinnum við hugmyndina okkar út frá þeim forsendum. Markmiðið með hugmyndinni okkar er að ferðamaðurinn komist burt frá amstri dagsins og fái að njóta stórbrotins umhverfis í náttúrulaugum í nágrenni jökuls.
Heimasíða Frumkvöðlakeppninnar: www.innovit.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 23:31
Spennan magnast og úrslitin nálgast...
Nú eru einungis fimm dagar eftir af fyrstu Frumkvöðlakeppni Innovit fyrir íslenska háskólanemendur! Vá hvað tíminn hefur liðið hratt, en við kynntum keppnina fyrst í byrjun október í fyrra og fyrsta áfanga lauk svo í janúar.
Ég var rétt í þessu að klára rúmlega 5 klst fund með verkefnastjórninni og nú er komið í ljós hvaða 8 viðskiptahugmyndir eru komnar í úrslitin á laugardag. Mjög frambærilegar og vandaðar hugmyndir skal ég segja ykkur!
En.... því miður lesendur góðir þá læt ég það ekki flakka fyrr en á morgun þegar búið verður að láta keppendurna vita.... Segi betur frá öllum hugmyndunum á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 17:40
Góðar hugmyndir eða næsta flopp?
Í gær var ég á fjárfestingarráðstefnunni Seed Forum Iceland, sem haldin er hér á Íslandi tvisvar á ári. Ráðstefnan snýst um að framsækin sprotafyrirtæki fá tækifæri til að kynna viðskiptahugmynd sína fyrir fjárfestum og reyna að sannfæra þá um að leggja fjármagn inn í fyrirtækin. Þetta var í annað sinn sem ég tek tek þátt í Seed Forum og það er alltaf skemmtilegt að heyra fyrirtækin "pitcha" hugmyndir sínar.
Seed forum er frábært framtak og nauðsynlegur hlekkur í stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja, en hins vegar hafa þeir hjá Seed Forum ekkert haft úr allt of mörgum góðum íslenskum sprotafyrirtækjum að velja, þegar kemur að því að fá fyrirtæki til að kynna. Það er vonandi að Frumkvöðlakeppnin okkar hjá Innovit komi til með að bæta úr því á næstu árum, en það væri rökrétt framhald fyrir þau fyrirtæki sem enda ofarlega í keppninni að taka þátt í Seed Forum einu til þremur árum seinna þegar sækja þarf 2. umferð fjármögnunar (sem yfirleitt er á bilinu 100-800 milljónir).
Mér fanns einn stór galli hjá nánast öllum fyrirtækjunum sem kynntu í gær. Kynningarglærurnar voru flestar mjög óprófessional og töluverður hópur af þeim sem kynntu hefðu þörf fyrir að sækja námskeiðið "kynning og framsaga 101" :) No offence kæru frumkvöðlar, en þetta var því miður staðreyndin í gær.
Kynningarglærurnar sjálfar voru flestar álíka sexý og norski grjóthnullungurinn sem einn frumkvöðullinn mætti með :) Mörgum finnst það ofmetið að eyða peningum í markaðsefni og flott lúkk, en staðreyndin er sú að þetta hefur að mínu mati mjög mikið að segja. Ef að ég væri að kynna hugmynd mína fyrir fjárfestum og væri að fara fram á fjárfestingu upp á svona 100-300 milljónir, eins og flestir í gær, þá myndi ég eyða smá pening í lúkkið á kynningarglærunum. Málið er nefnilega einfalt, það kostar pening að finna fjármagn. Fyrir hverjar 100 milljónir sem sækja ætti í nýtt hlutafé myndi ég gera ráð fyrir amk 5 milljónum í kostnað! Fyrir aðeins brot af þeim peningum mætti fá auglýsingastofu eða grafískan hönnuð til að hanna professional og flotta kynningu.
En burtséð frá kynningarmálunum þá voru þarna nokkrar áhugaverða hugmyndir og læt ég hér flakka álit mitt á þeim í þeirri röð sem ég myndi sjálfur kynna mér nánar að fjárfesta í ef ég ætti svona eins og 100 milljónir á lausu...
Eff2 technologies - Fyrsti fjárfestingarkostur. Íslenskt fyrirtæki með hugbúnaðarlausn sem getur á sjálfvirkan hátt greint ólöglegt myndefni á netinu á mjög stuttum tíma. Hef séð þetta "in action" og þetta er mjög töff auk þess sem það eru klárlega til viðskiptavinir sem eru tilbúnir að borga vel fyrir þetta. Þeir þurfa samt að sanna að þeir geti landað þessum viðskiptavinum. Það sem helst vantar hjá þeim er góður einstaklingur í teymið sem mun sjá um viðskipta- og söluhliðina. Veit reyndar að verið er að vinna í því. Þess má geta að ég er reyndar kannski soldið hlutdrægur á þessa hugmynd þar sem ég hef aðeins verið að hjálpa þessum strákum. Engu að síður mjög flott og vel útfærð viðskiptahugmynd þó viðskiptahliðin eigi enn aðeins í land.
Hersir Invest - Íslenskt fyrirtæki með hugbúnað/kerfi sem notar algóriþma til að besta ávöxtun viðskipta á gjaldeyris- og hrávörumörkuðum. Ég hef mikla trú á því að tölvur muni í auknum mæli taka við af mannfólkinu í viðskiptum með hlutabréf, gjaldeyri og þess háttar. Þessi þróun hefur þegar tekið mikin kipp, sérstaklega vestanhafs þar sem forritarar og stærðfræðingar hafa í auknum mæli verið að leysa verðbréfamiðlara af hólmi. Hef sjálfur verið að leika mér í svona pælingum og ef þetta virkar hjá þeim í Hersi gæti þetta klárlega verið gott tækifæri.
MIND - Íslenskt fyrirtæki sem hefur hannað og framleitt fartölvu fyrir 3-8 ára börn! Hún var reyndar frekar töff, verð að viðurkenna það. Það er samt aldrei að vita hvernig krakkar munu taka þessu og gæti farið beint í samkeppni við litlar leikjatölvur. Ég held samt að ef vel tekst til að þeim gæti tekist að skapa "blue ocean of uncontested markat space" með því að selja "fartölvur" í dótabúðum. Þeir voru Nota Bene með mest professional kynninguna í gær. Hef samt ekki alveg jafn mikla trú á þessu og Eff2 og Hersi, þar sem þeir eru að fara inn á erfiðan markað þar sem samkeppni gæti hæglega kafffært þeim ef illa gengur.
Mentis Cura - Íslenskt fyrirtæki með greiningartækni fyrir Alzheimer og CNS sjúkdóma (getur einhver sagt mér hvað það er?). Kynningin í gær var raunar arfaslök, því miður, það gæti nefnilega vel verið að það sé eitthvað potential í þessu hjá þeim. Áttaði mig ekki nógu vel á viðskptamódelinu þeirra og virði fyrir væntanlega viðskiptavini. Þeim virðist klárlega vanta viðskiptafólk með söluhæfileika í þeirra teymi. Ef ég myndi setja inn fjármagn, myndi ég setja það sem skilyrði að ráða nýjan framkvæmdastjóra en núverandi yrði áfram yfir tæknilegri þróun.
Inveco Nord - Norskt fyrirtæki sem hefur þróað fyrstu hjólastólana með engum málmi, þ.e. alfarið úr plastefnum. Alveg fín pæling, t.d. fyrir sundlaugar og flugvelli. Klár galli fyrir fatlaða að ekki er hægt að leggja hjólastólana saman sem gerir það mjög erfitt að ferðast með þá í bíl.
Accel Jet - Íslenskt fyrirtæki sem ætlar að bjóða upp á "Air-taxi" þjónustu. Litlar og léttar einkaþotur sem taka allt að fjóra farþega. Mun kosta helmingi minna en miðað við að leigja einkaþotu í dag. Það er galli á þessari hugmynd að einkaþoturnar draga ekkert sérstaklega langt, rétt drífa til London, svo farþegar þyrftu að millilenda ef farið væri mikið lengra. Þær fara einnig aðeins hægar en þessar hefðbundnu einkaþotur. Spurning hvort að þotuliðið sem á annað borð hefur nægt fjármagn til að borga fyrir venjulegar einkaþotur muni nýta sér þetta en kannski mun þetta fjölga aðeins í þotuliðinu :)
Oppdal Naturstein - Norskt fyrirtæki sem grefur eftir, vinnur og selur norskan náttúrustein. Svo sem alveg fínast steinn og örugglega ágætis fyrirtæki sem hægt er að ná hóflegum hagnaði af. Þetta fyrirtæki átti hins vegar nákvæmlega ekkert erindi á þessa ráðstefnu að mínu mati.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2008 | 23:38
Blogghlé á enda...
Jæja, er ekki kominn tími til að maður byrji að blogga aftur ....amk láti heyra í sér svona einstaka sinnum :)
Flugvélar eru ágætar til þess að hugsa - var í tveimur slíkum um helgina og var að velta þessu bloggi fyrir mér. Komst að þeirri niðurstöðu að það væri tímabært að taka bloggið upp að nýju. Ætla þó ekki að lofa því upp í ermina á mér að vera alveg jafn duglegur og á síðasta ári - en amk láta þó mínar hugsanir flakka annars lagið....
Eins og einhverjir vita þá hringsnýst ég náttúrulega í umhverfi sprotafyrirtækja í starfi mínu hjá Innovit og af því tilefni skrifaði ég grein á Deigluna sem birtist í dag og ber heitið Niðursveifla í efnahagslífi - tími til uppbyggingar. Greinina er hægt að lesa hérna: http://www.deiglan.com/index.php?itemid=11942
Ef einhver er enn að kíkja inn á bloggið eða rambar inn á það, endilega lesið greinina og commentið á hvað ykkur finnst! ....maður er nefnilega svo mitt inn í hringiðunni að það getur vel verið að þeir sem eru fyrir utan sjái hlutina í allt öðru ljósi :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2007 | 11:48
Miðasala komin á fullt
Miðasala er komin á fullan skrið og gengur mjög vel. Takmarkað sætaframboð en enn hægt að kaupa miða á http://www.midi.is/tonleikar/1/4959/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 21:34
Critical Success Factors in Entrepreneurship
Jæja, þá eru einungis tvær vikur í að Kenneth P. Morse, einn helsti sérfræðingur í heiminum á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi komi til landsins í boði Innovit og allt orðið klappað og klárt :) Sjá nánar á www.innovit.is
"Critical Success Factors in Entrepreneurship
Ráðstefna um lykilþætti árangurs í nýsköpun og stofnun fyrirtækja á Nordica 10. október 2007
Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er og mun áfram verða drifkraftur íslensks atvinnulífs. Jafnt innan fyrirtækja sem og við stofnun nýrra fyrirtækja.
Innovit býður Íslendingum nú einstakt tækfæri til að fræðast um lykilþætti til árangurs þegar kemur að stofnun þekkingarfyrirtækja í fremstu röð. Kenneth P. Morse, einn helsti sérfræðingur heims á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi mun í fyrsta sinn halda fyrirlestur hér á landi auk þess sem íslenskir frumkvöðlar munu miðla sinni reynslu.
8:00 | Skráning og morgunverður |
8:30 | Össur Skarphéðinsson Iðnaðaðrráðherra |
8:40 | Kenneth P. Morse Raðfrumkvöðull og framkvæmdastjóri frumkvöðlaseturs MIT háskóla |
9:30 | Andri Heiðar Kristinsson Stofnandi og framkvæmdastjóri Innovit |
9:50 | Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands |
10:10 | Kaffihlé |
10:30 | Hilmar V. Hilmarsson Forstjóri CCP |
11:00 | Prófessor Jón Atli Benediktsson Þróunarstjóri Háskóla Íslands og einn stofnenda líftæknifyrirtækisins Oxymap |
11:30 | Dr. Gísli Hjálmtýsson Framkvæmdastjóri Brú Venture Capital og handhafi yfir 20 einkaleyfa |
12:00 | Dr. Svafa Grönfeldt Rektor Háskólans í Reykajvík og stofnandi Gallup |
12:30 | Hádegisverður |
Ráðstefnustjóri er Helga Arnardóttir, fréttamaður |
Kenneth P. Morse er raðfrumkvöðull og framkvæmdastjóri frumkvöðlaseturs MIT háskóla í Boston. Kenneth hefur undanfarna áratugi spilað lykilhlutverk í stofnun fimm hátækni- og þekkingarfyrirtækja í Bandaríkjunum. Sem framkvæmdastjóri frumkvöðlaseturs MIT hefur hann undanfarin áratug borið þungann af þjálfun og kennslu frumkvöðla úr öllum deildum skólans, sem er einn sá allra fremsti í heiminum á þessu sviði. Kenneth, sem hefur ferðast víða um heiminn og haldið fyrirlestra, verið ráðgjafi stjórnenda, stjórnvalda og fyrirtækja, er stórskemmtilegur fyrirlesari sem vert er að taka eftir.
Miðasala er hafin á www.midi.is - Takmarkaður sætafjöldi
9.850 kr. Almennt verð
2.850 kr. Fyrir alla nemendur í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst. "
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Andri Heiðar Kristinsson
Tenglar
Ýmsar vefsíður
Hér getur að líta ýmsar vefsíður sem ég mæli með...
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- godsamskipti
- andres
- arnih
- astamoller
- borgar
- doggpals
- ekg
- einsidan
- elinora
- emils
- erla
- erlaosk
- eyrun
- ea
- grazyna
- gudbergur
- gudfinna
- hannesgi
- heidamaria
- helgahaarde
- herdis
- ingolfur
- johannalfred
- jonthorolafsson
- kolbrunb
- kristinhrefna
- kristinmaria
- magginn
- maggaelin
- mariagudjons
- olofnordal
- reynir
- advocatus-diaboli
- siggisig
- stefaniasig
- svansson
- tomasha
- vakafls
- vilby
- vkb