Færsluflokkur: Bloggar
9.7.2007 | 19:08
Fundamaraþon í vikunni
Þessi vika mun einkennast af klassísku fundamaraþoni, sem er nú reyndar engin nýlunda hjá okkur í Innovit, þar sem viðræður við bakhjarla og ýmsa samstarfsaðila eru í fullum gangi. Vikan byrjaði vel og við Magnús höfum náð að afkasta talsvert miklu í dag. Meðal annars fórum við á fund Össurar Skarphéðinssonar, Iðnaðarráðherra, og kynntum starfsemi Innovit fyrir honum. Össur tók mjög vel í hugmyndir okkar, enda er það yfirlýst stefna hans sem og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar að leggja mikla áherslu á nýsköpunarmál á þessu kjörtímabili.
Það er líka gaman af því að undanfarið hefur það færst verulega í aukana að ýmsir aðilar hafi samband og óski eftir fundi með Innovit. Eins og gefur að skilja voru það aðallega við sjálf sem óskuðum eftir fundum í byrjun. Vonandi er þetta merki um að fólk sé í auknum mæli farið að taka eftir okkar störfum. Í dag var t.d. haft samband við okkur frá breska sendiráðinu og óskað eftir fundi og mun fulltrúi þess m.a. kynna fyrir okkur útrásarmöguleika íslenskra fyrirtækja í Bretlandi. Verður gaman að fræðast betur um þá möguleika.
Ég hófst líka handa við að skipuleggja hringferð um landið, en við stefnum á að hitta forsvarsmenn allra háskóla landsins á næstu vikum til að kynna þeim starfsemi Innovit og ræða samstarfsmöguleika. Innovit stefnir á að vinna í nánu samstarfi við alla háskóla landsins og hefur fyrsta þjónustusamningnum nú þegar verið landað, en á föstudaginn staðfesti Háskóli Íslands að skólinn myndi gera þriggja ára þjónustusamning við Innovit. ...One down, seven to go
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 15:52
Nýsköpun – Er Ísland best í heimi?
Í morgunblaðinu í gær birtist grein eftir mig og læt ég hana einnig flakka hér....
Nýsköpun Er Ísland best í heimi?
Við Íslendingar höfum lengi talið okkur vera best í heimi þegar kemur að flestu sem við tökum okkur fyrir hendur ef ekki best, þá best miðað við höfðatölu. Nú er það óumdeilt að nýsköpun, í öllum sínum birtingarformum, er einn af lykilþáttum framþróunar og aukins hagvaxtar. Þá er vert að spyrja: Erum við íslendingar best í heimi þegar kemur að nýsköpun, frumkvöðlastarfssemi og stofnun nýrra sprotafyrirtækja? Svarið er einfalt: Í okkur býr frumkvöðlakrafturinn, framtakssemin og hugvitið sem til þarf, en við erum hins vegar langt frá því að leysa þessa krafta úr læðingi svo vel sé. Ef við íslendingar ætlum okkur að viðhalda samkeppnishæfni okkar, byggja upp útrásarfyrirtæki næstu kynslóðar og gera Ísland að þekkingarþjóðfélagi í fremstu röð, þurfum við svo sannarlega að bretta upp ermarnar áður en aðrar þjóðir sigla hraðbyri fram úr okkur.
Samanburður við aðrar þjóðir
Árlega er framkvæmd alþjóðleg rannsókn á umfangi frumkvöðlastarfsemi í yfir 40 löndum í heiminum. Rannsóknin ber heitið Global Entrepreneurship Monitor (GEM) og hefur Rögnvaldur J. Sæmundsson, dósent við Háskólann í Reykjavík, haft umsjón með framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi. Í skýrslunni kemur fram að það helsta sem styður við frumkvöðlastarfsemi á Íslandi, séu menningarlegar og samfélagslegar venjur með öðrum orðum, frumkvöðullinn blundar í okkur. Athyglisverðasta staðreyndin er hins vegar sú að einungis tæplega þriðjungur íslenskra frumkvöðla eru með háskólamenntun. Þetta hlutfall er um tvöfalt hærra í öðrum hátekjuþjóðum s.s. Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndunum. Þetta hlutfall er sláandi lágt og ég spyr: Hvar er frumkvöðlakrafturinn og framtakssemin í háskólamenntuðum íslendingum? Af hverju erum við eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að menntunarstigi frumkvöðla? Svarið liggur í því að hvatann, fræðsluna og stuðningsumhverfið þarf að bæta verulega. Ef við ætlum okkur að ná í skottið á okkar samkeppnisþjóðum gengur ekki lengur að tala bara fallega um nýsköpun, krossa fingurnar, bíða og vona.
Fá sprotafyrirtæki
Þessar niðurstöður GEM endurspeglast í því að hlutfallslega mjög fá fyrirtæki sem stofnuð eru á íslandi starfa í þekkingariðnaði og eru skilgreind sem sprotafyrirtæki. Samkvæmd skilgreiningu Samtaka Iðnaðarins og Samtaka Sprotafyrirtækja er það fyrirtæki sem hefur undir milljarð í árlegri veltu og eyðir amk. 10% veltunnar í rannsóknir og þróun kallað sprotafyrirtæki. Á Íslandi hafa einungis örfá fyrirtæki bæst í þennan hóp fyrirtækja á hverju ári, nánar tiltekið innan við 5 að meðaltali á hverju ári síðustu 10 árin. Í þessum tölum eru undanskilin þau fyrirtæki sem nú þegar hafa farið á hausinn. Ef fleiri fræjum verður ekki sáð á þessum vettvangi, hvar munu þá útrásartækifæri næstu kynslóðar og fjárfestingatækifæri landsmanna liggja á næstu áratugum?
Þríhyrningur nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi
Háskólar, atvinnulíf og nemendur mynda þríhyrning nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi. Í mjög svo einfölduðu máli má segja að háskólarnir búi yfir fræðilegri þekkingu og stundi grunnrannsóknir, atvinnulífið búi yfir hagnýtri þekkingu, reynslu og fjármagni og nemendurnir búi yfir frumkvöðlakrafti, framtakssemi og ferskum hugmyndum. Þessar þrjár meginstoðir þríhyrnings nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi eru hver um sig traustar í íslensku samfélagi, en ljóst er að treysta þarf verulega tengslin á milli þeirra. Í Bandaríkjunum hafa menn fyrir löngu áttað sig á mikilvægi þessa þríhyrnings-samspils, enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Stór hluti hátækni- og þekkingarfyrirtækja vestan hafs er einmitt sprottinn upp úr viðjum þessa þríhyrnings.
Innovit eflir þríhyrninginn
Innovit er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur sem stofnað var í janúar 2007 af sjö núverandi og fyrrverandi nemendum við Háskóla Íslands. Meginmarkmið Innovit er að styrkja tengsl nýsköpunarþríhyrningsins og styðja þannig við bakið á hugmyndaríkum nemendum, auka þátt háskólamenntaðra einstaklinga í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi og stuðla að fjölgun sprotafyrirtækja í þekkingariðnaði. Þessum markmiðum verður náð með fjölbreyttri þjónustu við unga frumkvöðla ásamt vitundarvakningu í þjóðfélaginu. Þjónusta Innovit er öllum opin en lögð er sérstök áhersla á ungt háskólamenntað fólk úr öllum háskólum landsins ásamt því að efla samstarf á milli nemenda í ólíkum háskólum. Starfsemi Innovit má skipta niður í fjórar meginstoðir; 1) Ókeypis aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki. 2) Fræðslu, fyrirlestra, námskeið og ráðstefnuhald. 3) Sumarvinnu við nýsköpun. 4) Keppni í gerð viðskiptaáætlana, að fyrirmynd MIT $100K Entrepreneurship Competition.
Ávinningur þjóðarinnar
Uppbygging skapandi atvinnulífs er forsenda þess að byggja upp þjóðfélag í fremstu röð, sem skapar þegnum sínum farsæl skilyrði til búsetu og starfa. Til þess að tryggja að svo megi verða í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi framtíðarinnar þarf að tryggja samspil þríhyrningsins: atvinnulífsins við alla háskóla landsins og nemendur þeirra, á hlutlausum og miðlægum vettvangi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2007 | 17:18
Framkvæmdastjóri MIT Entrepreneurship Center
Það er farið að styttast í að Kenneth P. Morse komi til landsins í boði Innovit! Ég get sagt ykkur að það er mögnuð upplifun að kynnast svona manni sem hefur þennan feril að baki og á milli þess sem hann leiðbeinir frumkvöðlum í MIT ferðast hann um heiminn, heldur fyrirlestra, CEO stjórnunarnámskeið og er ráðgjafi margra stórfyrirtækja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.7.2007 | 18:49
Back to business....
Jæja, nú er maður staddur á flugvellinum í Kaupmannahöfn ....þar sem ég er reyndar búinn að vera í allan dag vegna þess að ég missti af vélinni sem ég átti að fara með kl. 7:50 í morgun Það er víst eitthvað til í því sem sumir vinir mínir segja, að ég og flugvélar séum ekki mjög sammála um tímasetningar. Held að þetta sé í fimmta sinn sem ég missi af flugvél á síðustu 2-3 árum ....ástæðurnar reyndar af ýmsum toga. Þrátt fyrir nægan tíma í dag nennti ekki niður í bæ þannig að ég leigði mér bara herbergi á hóteli hérna við völlinn og er búinn að vera að vinna í tölvunni í dag og bæta upp fyrir síðustu viku.
Helgin er annars búin að einkennast af afslöppun í Köben, bjó hjá Einari Þór, æskuvini mínum sem er í doktorsnámi hérna og við tókum því rólega í klassískum "túristapakka", drukkum öl á Nyhavn, löbbuðum strikið og kíktum í nokkrar búðir. Okkur var síðan boðið í matarboð í gær hjá nokkrum íslendingum sem eru að ljúka verkfræðinámi hérna sem var virkilega gaman. Í stuttu máli, stresslaus afslöppunarhelgi eins og þær gerast bestar! Á morgun fer síðan allt aftur á fullt hjá Innovit, en nú sem endranær eru gríðarmörg verkefni framundan og spennandi tímar.
Best að missa ekki af þessari vél líka, á að fara í loftið eftir 20 mín....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 14:27
9 gullverðlaun Íslendinga í Danmörku
Ég er búinn að vera staddur í Odense í Danmörku frá því á þriðjudaginn á opna Norðurlandameistarmótinu í skylmingum með höggsverði. Skemmst frá því að segja að það kom sjálfum mér líklega mest á óvart hvað maður var fljótur að rifja upp gamla takta, en ég hef lítið getað æft síðustu tvö árin sökum meiðsla og mikilla anna. Kallinn gerði sér hins vegar lítið fyrir og tók bronsið í einstaklingskeppninni og gullið í liðakeppninni. Þó að tæknin og reynslan hafi skilað sínu, er deginum ljósara að nú þarf maður að drífa sig að taka upp þráðinn að nýju og koma sér aftur í sitt fyrra líkamlega form
En ég átti bara lítinn hluta af verðlaunum íslendinga á mótinu. Árangur Íslendinganna var stórglæsilegur, svo ekki sé minna sagt! Alls unnu íslendingar 9 Norðurlandameistaratitla af 12 mögulegum - það er svo sannarlega ekki í mörgum íþróttagreinum sem við Íslendingar getum státað af slíkum árangri. Mótið í heild sinni var mjög skemmtilegt og voru alls um 400 keppendur frá öllum norðurlöndunum sem kepptu, en mótið var sameiginlegt Norðurlandameistaramót fyrir allar þrjár tegundir sverða; höggsverð, stungusverð og lagsverð.
Eftirtaldir íslendingar urðu Norðurlandameistarar:
Karlar - fullorðnir: Ragnar Ingi Sigurðsson
Konur - fullorðnir: Þorbjörg Ágústsdóttir
Karlar - Öldungaflokkur: Ólafur Bjarnason
Karlar - U21: Sævar Baldur Lúðvíksson
Konur - U21: Sigrún Inga Garðarsdóttir
Konur - U17: Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir
Konur- U15: Gunnhildur Garðarsdóttir
Karlar - U13: Sindri Snær Freysson
Liðakeppni: Ragnar Ingi Sigurðsson, Andri Heiðar Kristinsson, Kári Freyr Björnsson og Sævar Baldur Lúðvíksson.
Íslendingarnir sem stálu senunni í mínum huga voru þau Sindri Snær og Gunnhildur, en þau eru einungis 13 og 14 ára gömul og bæði gríðarlega efnileg. Sindri Snær sýndi glæsileg tilþrif þegar hann vann ítalskan strák í úrslitunum í U13 ára flokknum og Gunnhildur var algjör maskína á þessu móti. Til að byrja með burstaði hún U15 ára flokkinn og fékk aðeins á sig 6 stig í heildina - og á þó eitt ár eftir í þeim aldursflokki. Auk þess gerði hún sér lítið fyrir og krækti í bronsverðlaun í U17 og silfurverðlaun í bæði U21 og fullorðinsflokki kvenna! Ég segi nú bara, geri aðrir betur á fjórtánda aldursári!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2007 | 01:11
Fyrsta fréttabréf Innovit
Rétt í þessu var gefið út fyrsta fréttabréf Innovit, en við gerum ráð fyrir að senda út slík fréttabréf nokkrum sinnum á ári.
Hægt er að nálgast fréttabréfið HÉRNA
Þeir sem vilja fá send reglulega fréttabréf Innovit geta skráð sig á vefsíðunni www.innovit.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2007 | 23:01
Frábær ferð til Þýskalands
Það þarf ekki mörg orð til að lýsa ferðinni okkar félaganna til Þýskalands um helgina:
Algjör snilld frá upphafi til enda!
Hápunktur ferðarinnar var síðan í gærkvöldi, þegar við fórum á veitingastað Heinz Winkler við rætur Þýsku Alpanna. Veðrið, útsýnið, þjónustan, umhverfið, maturinn, vínin var allt saman upplifun af bestu gerð. Við pöntuðum okkur 8-rétta smakkmatseðil, sem auk millirétta endaði í einhverjum 11 réttum, sem voru hver öðrum betri. Tveir skemmtilegustu réttirnir voru að mínu mati annars vegar 2. forrétturinn sem var hrár humar og hinsvegar kjöt-aðalrétturinn sem var dádýrasteik. Vínin sem við drukkum með voru ekki síðri, smökkuðum meðal annars mjög gott Sancerre hvítvín, frekar óvenjulegan Pinot Noir frá Austurríki, ásamt því sem Saint Emillion rauðvínið var í fullkomnu jafnvægi við dádýrasteikina.
Það var líka mjög gaman eftir matinn, við félagarnir sátum lengi í koníaksstofunni, spjölluðum saman og leystum vandamál heimsins Þar hittum við meðal annars þrjú merkilega hjón sem við spjölluðum við fram á nótt. Hópurinn samanstóð af vínframleiðanda frá Toscana og tveimur þýskum viðskiptajöfrum, ásamt konum, og var annar þeirra einn þekktasti vín-safnari í Þýskalandi, að sögn ítalska vínframleiðandans. Þeim fannst mjög gaman af okkur ungu "vitleysingunum" frá Íslandi sem voru búnir að fljúga um 3000 kílómetra til að fara þarna út að borða. Sátum síðan með þessu fólki á barnum fram eftir nóttu og drukkum Dom Pérignon kampavín í þeirra boði - alveg í lagi! Í morgun var síðan vaknað, borðaður þriggja rétta morgunmatur úti í sólinni, undir Alpaútsýninu - og lagt af stað heim á klakann.
Jæja, maður verður víst að fara að koma sér niður á jörðina - þó ég gæti mjög auðveldlega vanist svona lífi þá er ég ansi hræddur um að visa kortið sé ekki sammála mér nema kannski í mesta lagi svona eina til tvær helgar á ári En reyndar svona að öllu gamni slepptu, þá er verðlagið á veitingastöðum hérna á Íslandi svo hátt, að þessi staður var í raun ekkert dýrari en sambærileg máltíð á t.d. Holtinu, þrátt fyrir að maturinn og þjónustan væru af allt öðrum kalíber. ....Amk svo framarlega sem maður splæsir ekki í 1921 árgerðina af Chateau Moution Rotchild sem var að finna á vínseðlinum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 21:20
Fjárfestingafélagið Shark Holding ehf.
Á morgun held ég af stað til Þýskalands í hina svokölluðu "Hákarlaferð". Hákarlarnir samanstanda af mér, Magnúsi Má Einarssyni, Kenneth Breiðfjörð og Sverri Bollasyni. Við vorum allir í verkfræðinni á svipuðum tíma og kynntumst síðan mjög vel í gegnum BEST (Board of European Students of Technology) en við fjórir ásamt fleirum stofnuðum íslenskt aðildarfélag samtakanna fyrir tveimur árum. Höfum við allir haldið miklum og góðum vinskap síðan.
Þrátt fyrir að fjórir ólíkari menn séu líklega vandfundnir, eigum við það allir sameiginlegt að vera miklir "gourmet" menn auk þess sem við deilum mjög svipuðum fjárfestinga- og viðskiptasjónarmiðum. Ferðin til Þýskalands er tileinkuð þessum tveimur sameiginlegu áhugamálum og því ljóst að mögnuð ferð er í vændum.
Hápunktur ferðarinnar verður á laugardag, en þá hefur verið boðað til fyrsta stjórnarfundar fjárfestingafélagsins Shark Holding ehf. á Residenz Heinz Winkler setrinu í suður-Þýskalandi. Shark Holding ehf. er fjárfestingafélag í jafnri eigu okkar félaga sem stofnað var í "reykmettuðum" afkima á Hótel Sögu fyrir rúmri viku síðan. Á þessum fyrsta fundi í Þýskalandi verða fjárfestingamöguleikar félagsins ræddir. Félagið verður áhættusækið og gert er ráð fyrir að til að byrja með verði aðallega fjárfest í skráðum fyrirtækjum á tiltölulega nýjum mörkuðum.
Að loknum hluthafafundi tekur gourmet hlutinn öll völd í ferðinni, en á Rezidenz Heinz Winkler er staðsettur einn besti veitingastaður í Evrópu, þriggja stjörnu (af þremur mögulegum) veitingastaður samkvæmt Michelin stjörnugjöfinni sem almennt er talin sú virtasta í heiminum. Þar er ætlunin að njóta lífsins og senda bragðlaukana í rússíbanaferð.
Farinn í tölvufrí fram á sunnudag - góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.6.2007 | 23:58
Bloggþurrð að sumri
Maður er víst ekki búinn að vera sá duglegasti í blogg-bransanum í sumar og kominn tími til að reyna að bæta aðeins úr því. Það er reyndar alveg ótrúlegt með þetta blessaða sumar að það virðist, eins og svo oft áður, gjörsamlega ætla að gufa upp áður en maður varla nær að anda því að sér! Tíminn hefur flogið áfram, enda hefur verið nóg að gera undanfarið. Það hefur allt verið á fullu hjá Innovit, ég er farinn að æfa skylmingar aftur eftir nokkuð langt hlé og svo verður maður nú líka að gefa sér smá tíma til að sitja í blíðunni á Austurvelli og hitta vini og kunningja - amk þegar veðrið er eins og í dag.
Það er einmitt eitt af því sem ég ætla að nýta tímann vel í núna í sumar, hitta vini og kunningja sem maður hefur svolítið misst sambandið við undanfarið vegna þess hve mikið hefur verið að gera. Ég hef eins lengi og ég man eftir mér haft mikið að gera og næg skemmtileg verkefni fyrir stafni. Kosturinn við þetta er að í öllum þessum verkefnum hef ég hef eignast mikið af góðum vinum og kynnst ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki. Það liggur við að það sé full vinna að halda góðu sambandi við allt þetta góða fólk - en það er líklega ein besta vinna sem hægt er að hugsa sér. En það getur stundum verið smá púsluspil að koma þessu öllu saman og núna eru til dæmis helgarnar allar að verða bókaðar langt fram á sumar, utanlandsferðir, bústaðaferðir, brúðkaup, útilegur, ættarmót og fleira er á dagskránni með hinum ýmsu vinahópum. Þess á milli verður unnið af miklu kappi við uppbyggingu Innovit.
Frábært sumar í vændum!
Bloggar | Breytt 19.6.2007 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 00:07
Líf og fjör hjá Innovit
Það hefur verið líf og fjör hjá Innovit síðustu vikuna, enda eru fyrstu sprotafyrirtækin nú farin á fullt og því fjölmenni á skrifstofum Innovit á hverjum degi. Í dag kom síðan Magnús Már, verkefnisstjóri, aftur til starfa eftir útskriftarferð með véla- og iðnaðarverkfræðinemum til Þýskalands og Tælands. Frábært að fá Magga aftur til baka því verkefnin hafa hlaðist upp undanfarið og stefnir í mjög annasama tíma framundan hjá okkur. Mjög góðar fréttir bárust okkur í lok síðustu viku, en þá bættist við stór meginbakhjarl Innovit. Við munum þó að öllum líkindum bíða með að tilkynna um bakhjarla okkar til haustsins, eða þegar gengið hefur verið formlega frá samningum við alla aðila.
Í þessari viku er það helst á dagskránni að á morgun munum við Maggi sækja daglangt námskeið um umsóknir lítilla og meðalstórra fyrirtækja í 7. rammaáætlun ESB en það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera vel inni þeim málum, bæði fyrir Innovit, sem og varðandi ráðgjöf fyrir sprotafyrirtæki sem við aðstoðum. Miðvikudagurinn mun síðan að mestu fara í ráðstefnu á vegum Norrænu nýköpunarmiðstöðvarinnar sem staðsett er í Oslo, en fulltrúar hennar verða staddir hér á landi í vikunni. Í lok vikunnar er stefnan loks sett á að hefja af krafti undirbúning viðamikillar árlegrar keppni í gerð viðskiptaáætlana sem verður kynnt í haust og mun fyrsta keppnin fara fram í byrjun árs 2008.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Andri Heiðar Kristinsson
Tenglar
Ýmsar vefsíður
Hér getur að líta ýmsar vefsíður sem ég mæli með...
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- godsamskipti
- andres
- arnih
- astamoller
- borgar
- doggpals
- ekg
- einsidan
- elinora
- emils
- erla
- erlaosk
- eyrun
- ea
- grazyna
- gudbergur
- gudfinna
- hannesgi
- heidamaria
- helgahaarde
- herdis
- ingolfur
- johannalfred
- jonthorolafsson
- kolbrunb
- kristinhrefna
- kristinmaria
- magginn
- maggaelin
- mariagudjons
- olofnordal
- reynir
- advocatus-diaboli
- siggisig
- stefaniasig
- svansson
- tomasha
- vakafls
- vilby
- vkb