Færsluflokkur: Bloggar

Hákarlaferð til Þýskalands

Þeir sem mig þekkja vita að ég er fíkill í ferðalög, góðan mat, vín og góðan félagsskap. Þetta verður allt sameinað í góðri helgarferð til Þýskalands í lok júní. Ég, Magnús Már Einarsson, Kenneth Breiðfjörð og Sverrir Bollason hittumst í hádeginu á miðvikudag og skipulögðum hákarlaferðina svokölluðu, sem vonandi verður að árlegum viðburði. Við höfum allir starfað mikið saman í ýmsum félagsmálum innan verkfræðinnar og köllum okkur Hákarlana ....neinei, ekkert egó :D

Ég bara verð að deila með ykkur ferðaplaninu:

Fimmtudaginn 21. júní: Flogið til Munchen í Þýskalandi og gist þar fyrstu nóttina.

Föstudaginn 22. júní: Fyrri partinn ætlum við að njóta lífsins í Munchen, reyna að gerast menningarlegir og ef við gefumst upp á því verða bjórgarðarnir skoðaðir. Við erum búnir að leigja okkur Mercedes Bens bíl (Maggi beitti neitunarvaldi á aðrar bíla) og seinnipartinn á föstudeginum ætlum við að keyra um 100 km suður frá Munchen og gista á einhverju sveita-casino-i sem ég man ekki hvað heitir. Best að halda fast í Visa kortið...

Laugardagurinn 23. júní: Á laugardeginum er planið að keyra eitthvað um suður Þýskaland og er óráðið hvað við gerum um daginn. Um kvöldið munum við enda á Residenz Heinz Winkler og eigum pantað borð þar á þriggja stjörn Michelin veitingastað. Michelin stjörnugjöfin fyrir veitingastaði er sú virtasta í heiminum og þurfa veitingastaðir að vera með mjög háan standard, bara til að fá eina stjörnu (mest hægt að fá þrjár). Sem dæmi má geta þess að enginn veitingastaður á Íslandi fær svo mikið sem eina stjörnu. Þetta verður án efa mikil gourmet-upplifun. Hef borðað á þónokkrum Michelin stöðum en aldrei á þriggja stjörnu, svo þetta verður tær snilld :)

Á sunnudaginn munum við síðan keyra aftur til Munchen og fljúga heim á klakann.

Kominn með vatn í munninn....

 


Glæsilegur árangur Geirs og Þorgerðar

Nýliðin kosninganótt verður eflaust lengi í minnum höfð, enda voru kosningarnar gríðarlega spennandi og stjórnin féll og stóð til skiptis. Ég skálaði og bölvaði til skiptis - en sofnaði glaður.

Ég er mjög sáttur við niðurstöðuna, við Sjálfstæðismenn erum að bæta við okkur þremur þingmönnum og það eftir 16 ára veru í ríkisstjórn. Það er ekkert nema mikil viðurkenning á störfum flokksins undanfarin ár og sýnir glögglega að þjóðin treystir okkur best til að leiða áfram stjórn landsins.

Sérstaklega gaman að sjá hversu góð kosningin var í kjördæmum formannsins og varaformannsins. Tæp 40% í Reykjavík norður og rúm 42% í kraganum.

Til hamingju Sjálfstæðismenn!

 


mbl.is Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum X-D í dag!

Skora á alla að kjósa rétt í dag og merkja X við D í kjörklefanum.

Aðeins þannig tryggjum við að Geir H. Haarde fái áframhaldandi umboð til að stýra þjóðinni sem forsætisráðherra.

Sjáumst í gleðinni í kvöld Smile


Varúð - Vinstri stjórn á ferð

Það er ein staðreynd sem mér finnst vera mjög merkilega í öllu því skoðanafargani sem hefur dunið á okkur landsmönnum undanfarið. Meira en helmingur þjóðarinnar vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í stjórnarmeirihluta og einnig vill meirihlutinn að Geir H. Haarde verði áfram forsætisráðherra.

Ég er fullkomlega sammála þjóðinni í þessum efnum!

Spurningin er hins vegar þessi: Ef fólk vill Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og Geir sem forsætisráðherra - af hverju ætla ekki allir í þessum sama hóp að setja X við D?

Ótrúlega margir virðast telja það næsta öruggt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn og halda að einungis sé kosið um það hvaða flokkur verði með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Þetta er kolrangt. Það er langt í frá gefið að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn ef kosningin verður ekki góð. Ef menn vilja Geir H. Haarde sem forsætisráðherra er alveg ljóst að það verður að kjósa hann.

Ef niðurstaðan verður eins og margar skoðanakannanir gefa til kynna síðustu daga er veruleg hætta á að vinstristjórn skjóti upp kollinum á Íslandi. Á morgun verður kosið um það hvaða einstaklingur mun leiða þjóðina á næsta kjörtímabili. Það verða allir Íslendingar að taka afstöðu á grundvelli eigin skoðana og kjósa eftir sinni sannfæringu.

Hérna koma leiðbeiningar:

 

Ef þú villt Geir H. Haarde sem forsætisráðherra - kjóstu X-D

Ef þú vilt Steingrím J. Sigfússon sem forsætisráðherra - kjóstu X-V

Ef þú vilt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir sem forsætisráðherra - kjóstu X-S

Ef þú vilt Jón Sigurðsson sem forsætisráðherra - kjóstu X-B

Ef þú vilt Guðjón Arnar Kristjánsson sem forsætisráðherra - kjóstu X-F

Ef þú vilt Ómar Ragnarsson sem forsætisráðherra - kjóstu X-I

 

Látum ekki blekkjast!


Aðstaða fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki

Þessa dagana er um ákveðin tímamót að ræða hjá Innovit, þar sem við munum á næstunni ráða okkar fyrsta sumarstarfsmann til að vinna að nýsköpunarverkefni ásamt því að bjóða fyrstu einstaklingunum eða sprotafyrirtækinu ókeypis aðstöðu hjá okkur. Það er líka sérstaklega skemmtilegt að geta strax farið af stað, því upphaflegar áætlanir gerðu ekki ráð fyrir því að þetta yrði mögulegt fyrr en næsta sumar. Ég lauk í gær við að skrifa eftirfarandi fréttir á heimasíðu Innovit sem fara hér að neðan:

 

Aðstaða fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki
Innovit mun nú í fyrsta sinn í sumar bjóða upp á vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla til að vinna að nýsköpunarverkefni, viðskiptaáætlun eða stofnun fyrirtækis. Skrifstofur Innovit eru staðsettar í Tæknigarði og mun Innovit bjóða upp á hefðbundna skrifstofuaðastöðu með tölvu- og símabúnaði, aðgangi að interneti, faxi, prentun og fundaraðstöðu. Auk þess munu starfsmenn Innovit vera til aðstoðar og ráðgjafar eftir þörfum.

Í sumar verður boðið upp á 2-3 vinnuaðstöður og geta bæði einstaklingar og hópar sótt um að komast að. Vinnuaðastaðan verður kostuð af Innovit og ekki þarf að greiða leigu né standa straum af almennum skrifstofukostnaði. Aðstaðan verður veitt í þrjá mánuði í senn, frá 1. júní 2007, með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum. Athugið að ekki er um launuð störf að ræða, heldur einungis skrifstofuaðstöðu.

Öllum stendur til boða að sækja um umrædda aðstöðu, óháð menntun, menntastofnun eða fyrri reynslu. Við val á umsækjendum verður helst litið til eftirfarandi þátta:

- Raunhæfi þess að arðbært fyrirtæki verði stofnað í kjölfarið.

- Menntun, reynsla og framtíðaráform umsækjenda

- Það er kostur ef verkefnið/hugmyndin hefur áður hlotið aðrar styrkveitingar

- Frumkvæði og samskiptahæfileikar umsækjenda

Umsóknir um aðstöðu hjá Innovit skal senda inn á tölvutæku formi til framkvæmdastjóra Innovit, Andra Heiðars Kristinssonar, á netfangið innovit@innovit.is fyrir kl. 16:00 föstudaginn 25. maí 2007.

 

Sumarvinna við nýsköpun

Innovit auglýsir eftir nemanda í sumarstarf til að vinna að spennandi undirbúningi að stofnun nýs íslensks fyrirtækis. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og er samstarfsverkefni Innovit og Þorsteins Inga Sigfússonar, prófessors, sem nýlega hlaut alheimsverðlaunin Global Energy International Prize fyrir vetnisrannsóknir sínar. Í stýrihóp verkefnisins verða m.a. fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu og viðskiptabönkunum ásamt sérfræðingum úr Háskóla Íslands.

Í starfið er óskað eftir nemanda sem er langt kominn með grunnnám, eða í meistaranámi, annað hvort í viðskipta- og hagfræðideild eða lögfræðideild. Umsækjandi þarf að búa yfir miklu frumkvæði, hafa getu til að starfa sjálfstætt og búa yfir miklum samskiptahæfileikum ásamt góðri tölvukunnáttu. Ef niðurstöður lofa góðu verður afrakstur verkefnisins stofnun nýs fyrirtækis sem gæti haft mikil tækifæri á markaði til framtíðar.

Verkefnið felur í sér upplýsingaöflun og þróun á gagnagrunni yfir C02 útsleppi á Íslandi, tengingu þess við atvinnulífið, íslenskan iðnað og samfélagið í heild sinni. Á grundvelli gagnagrunnsins verður tekin afstaða til hugsanlegrar stofnunar miðlunarvettvangs með kolefniskvóta, ICCE- Icelandic Carbon Credit Exchange, íslensks kolefniskvótamarkaðar.

Áhugasamir geta fengið nánari upplýsingar um eðli verkefnisins hjá undirrituðum. Umsóknir skulu sendar á tölvutæku formi á netfangið innovit@innovit.is fyrir kl. 16:00, föstudaginn 11. maí 2007.

 


Eurovision partý

Nú styttist í að Eiríkur "okkar" Hauksson stígi á svið í Helsinki. Það er því um að gera að taka fimmtudagskvöldið frá og mæta í Eurovision partý ungra sjálfstæðismanna sem hefst kl. 18:30 í kosningamiðstöðinni - húsi verslunarinnar. Gísli Marteinn Eurovision-mógúll verður kynnir kvöldsins.

euro_10_mai_07_2_600x400


Frábært hjá Orkuveitunni

Get ekki annað en hrósað Orkuveitunni fyrir að stofna þennan sjóð. Hann er til fyrirmyndar og það væri óskandi að fleiri fyrirtæki og einkaaðilar myndu feta í fótspor Orkuveitunnar í þessum málum. Það er ekki nóg að ríkið komi eingöngu að stuðningi við frumkvöðla - það eru mikil tækifæri fyrir einkaaðila.

....Í kjölfarið á slíkum styrkveitingum er síðan kjörið tækifæri fyrir styrkþega að leita til Innovit, en það er einmitt eitt af meginverkefnum okkar að aðstoða frumkvöðla og auka eftirfylgni við hagnýtar rannsóknir þeirra og hjálpa þeim að stofna fyrirtæki út frá arðvænlegum hugmyndum.

www.innovit.is

 

 


mbl.is 100 milljónir króna til 40 verkefna í umhverfis- og orkurannsóknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dekurkynslóðin

Við margar kynslóðir festast ákveðin nöfn, s.s '68 kynslóðin eða því um líkt. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað mín kynslóð verður kölluð þegar ég verð komin á efri árin. Ég tel mig nú hafa komist að niðurstöðu:

Dekurkynslóðin

Mín kynslóð, (og kannski er það bara ég en ég tel það nú reyndar hafa aukist talsvert hjá mér enn yngra fólki) hefur alist upp við mikið góðæri og velsæld í þjóðfélaginu. Dekurkynslóðin veit ekki hvernig það er að búa í landi þar sem foreldrar okkar hafa ekki vinnu, við höfum haft nóg að borða og í raun lifað í velllystingunum - án þess að margir af minni kynslóð hafi þurft að vinna mikið fyrir því. Ég hef líka stundum orðið vitni að alveg ótrúlegum kröfum barna og unglinga sem vilja fá allt upp í hendurnar. Nú og þegar aðeins lengra er komið í lífinu og foreldrarnir hætta að dekra við okkur - þá taka bara botnlausir yfirdrættir við og halda uppi hinum háa lifnaðarstandard. En flestir sem ég þekki hafa þó litlar áhyggjur af yfirdrættinum  .....enda fá allir vinnu og flestir bara nokkuð vel launaða. Mín kynslóð lifir hinu ljúfa lífi.

Ég get ekki kvartað yfir þessu ljúfa lífi, en ég held að of margir á mínum aldri taki þessu frábæra lífi samt sem allt of gefnu. Ég vona bara að mín kynslóð gleymi því ekki að foreldrar okkar flestra hafa unnið baki brotnu til að búa okkur þetta góða umhverfi og það er alls ekki gefið að þetta ljúfa líf haldi áfram af sjálfu sér. Við berum sjálf ábyrgð á því að koma okkur áfram í lífinu, taka eigin ákvarðanir og getum ekki treyst á að kynslóðirnar á undan passi upp á áframhaldandi góða tíma.

Nú, af hverju fór ég að hugsa mikið um þetta í dag? Jú, vegna þess að mér finnst ótrúlega margir jafnaldrar mínir vera mjög "ligeglad" með ýmsa hluti og rúlla bara áfram með sitt daglega líf án þess að taka afstöðu til hlutanna í kringum sig. Þetta á t.d. sérstaklega við um stjórnmál. Mér finnst það allt of algengt að jafnöldrum mínum finnist þau ekki skipta neinu máli. Spurning hvort það sama yrði upp á teningnum ef þjóðfélagið myndi taka stökk afturávið um 20 ár?

Mínir kæru jafnaldrar: Alveg sama hvað þið ætlið að kjósa, vinsamlegast ekki gera lítið úr því að það skiptir miklu máli hverjir munu stjórna landinu. Kynnið ykkur málin og takið afstöðu - það gerir það enginn fyrir ykkur og það verður ekki hægt að spóla til baka eftir næstu 20 ár.


Partý ungra sjálfstæðismanna

Á morgun ætla ungir sjálfstæðismenn að halda partý á skemmtistaðnum Deco. Gleðin hefst kl. 21:00 - allir að kíkja!

party_4_mai_07_600x400


Gríðarleg fjárútlát

Ekki ætla ég nú að dæma um sekt eða sýknu Baugsmanna. Hitt er svo annað mál, að af því sem ég hef skoðað um málið þykja mér ásakirnar frekar léttvægar miðað við hina gríðarlegu rannsókn málsins. Ríkissaksóknari er búinn að eyða tugum ef ekki hundruðum milljóna í rannsóknina og niðurstaðan er 3 mánaða skilorðsbundinn dómur fyrir aðalsakborninginn, Jón Ásgeir. Að sjálfsögðu á rétt að vera rétt og allir eiga að sitja við sama borð en það er óumdeilt að ótrúlegum peningum hefur verið eytt í þetta mál - sem miðað við dóminn virðist ekki vera alvarlegra en 3 skilorðsbundnir mánuðir. Ég er líka nokkuð sannfærður að ef rétt er, að brot hafi átt sér stað, þá eru þau mörg brotin sem viðgangast í viðskiptalífinu sem eru mun alvarlegri en þetta.

En ekki er ég nú lögfróður maður og líklega er mín skoðun nokkuð lituð af fjölmiðlaumfjölluninni ....sem síðan má rökræða um sbr. síðustu færslu :)


mbl.is Jón Ásgeir og Tryggvi sakfelldir vegna kreditreiknings frá Nordica
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Andri Heiðar Kristinsson

Andri bloggar....

Andri Heiðar Kristinsson
Andri Heiðar Kristinsson

Ég, hugsjónir mínar og pælingar um allt og ekkert...

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 20254

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband